Rafbíllinn Kia e-Niro verður frumsýndur í París

Rafbíllinn Kia e-Niro verður frumsýndur í París

19. september 2018

Kia mun frumsýna nýjasta rafbíl fyrirtækisins Kia e-Niro á bílasýningunni í París í byrjun október. Þetta er ný útgáfa af Kia Niro sem fæst nú þegar í Hybrid og Plug-in Hybrid útfærslum. Þessi nýjasta útfærsla Kia e-Niro er með engum útblæstri enda um hreinan rafbíl að ræða.

Kia e-Niro er með nýjum og tæknivæddum 64 kWh lithium rafhlöðupakka sem skilar bílnum drægni upp á alls 455 km í blönduðum akstri og allt að 615 km í borgarakstri. Rafmótorinn skilar alls 204 hestöflum og 395 Nm í togi. Bíllinn er aðeins 7,8 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km hraða. Kia e-Niro mun einnig vera fáanlegur í útfærslu með 39,2 kWh lithium rafhlöðu þar sem drægnin er 289 km í blönduðum akstri. Sá bíll verður með rafmótor uppá 136 hestöfl en togið er jafnmikið og í bílnum með stærri rafhlöðunni eða 395 Nm. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í 100 km hraða á 9,8 sekúndum.

Kia e-Niro verður framhjóladrifinn eins og Niro Hybrid og Plug-in Hybrid. Rafhlaðan er undir farangursrýminu sem myndar lágan þyngdarpunkt og tryggir hámarks stöðugleika og akstursánægju. Drægnin miðast við bestu hugsanlegu aðstæður samkvæmt upplýsingum frá suður-kóreska bílaframleiðandanum og miðast við nýjustu reglur við mælingar á drægni (WLTP). Bíllinn var upphaflega kynntur sem Niro EV á bílasýningunni í Busan í Suður-Kóreu í sumar en nafni hans hefur verið breytt í e-Niro fyrir evrópskan markað.

Að sögn Þorgeirs Pálssonar, sölustjóra Kia hjá Bílaumboðinu Öskju er von á bílnum til Íslands á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. ,,Við erum gríðarlega spennt að fá nýjan Kia e-Niro hingað til lands og við finnum fyrir mjög miklum áhuga á bílnum. Kia Niro hefur verið mjög vinsæll hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Alls hafa 200.000 eintök af bílnum selst á heimsvísu frá því hann kom fyrst á markað árið 2016. Það er deginum ljósara að þessi nýi rafbíll mun verða mjög vinsæll hér á landi miðað við þá eftirvæntingu sem ríkir fyrir komu hans. Í lok þessa árs verða á boðstólnum tvær gerðir Hybrid bíla, þrjár gerðir Plug-in Hybrid bíla og tvær gerðir 100% rafbíla þannig að alls verðum við með sjö mismunandi útfærslur af rafknúnum Kia bílum hér hjá Öskju. Og það er meira á leiðinni á komandi misserum,” segir Þorgeir ennfremur.

Kia e-Niro er annar hreini rafbíllinn sem Kia framleiðir en fyrir er rafbíllinn Kia Soul EV sem verið hefur vinsæll hér sl ár. Kia mun bjóða 16 rafknúna bíla árið 2025 sem verða hreinir rafbílar, Hybrid eða Plug-in Hybrid útfærslur. Þá hyggst Kia kynna fyrsta vetnisknúna bíl fyrirtækisins árið 2020/2021.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.