Kia Niro EV mun hafa drægni uppá 455 km

Kia Niro EV mun hafa drægni uppá 455 km

9. júlí 2018

Kia kynnti nýjan Kia Niro EV sem er hreinn rafbíll á bílasýningunni í Busan í Suður-Kóreu. Bíllinn verður formlega frumsýndur á alþjóðlegu bílasýningunni í París í haust en hann mun koma á markað í byrjun næsta árs. Þetta er ný útgáfa af Kia Niro EV sem fæst nú þegar í Hybrid og Plug-in Hybrid útfærslum.

Kia Niro EV er með nýjum og tæknivæddum 64 kWh lithium rafhlöðupakka sem skilar bílnum rúmum 200 hestöflum og drægni upp á alls 455 km. Kia Niro EV mun einnig vera fáanlegur í útfærslu þar sem drægnin er 289 km og 39,2 kWh lithium rafhlöðu . Sá bíll verður með rafmótor uppá 150 hestöfl. Drægnin miðast við bestu hugsanlegu aðstæður samkvæmt upplýsingum frá suður-kóreska bílaframleiðandanum og nýjustu reglur við mælingar á drægni (WLTP). Kia Niro EV er með engan útblástur þannig að um er að ræða bæði afar umhverfisvænan og og hagkvæman bíl. Þetta er annar hreini rafbíllinn sem Kia framleiðir en fyrir er rafbíllinn Kia Soul EV. Kia Niro EV er hannaður í hönnunarstöðvum Kia í Kaliforníu og Namyang í Suður-Kóreu.

Kia Niro EV er fyrsti rafbíllinn í Crossover flokknum. Gott aðgengi er í bílnum þar sem hann er hærri en venjulegur fólksbíll. Ökumaður og farþegar sitja hátt, prýðilegt útsýni er úr bílnum og gott innanrými og skottpláss.

,,Þetta er mjög spennandi bíll og hans hefur beðið með mikilli eftirvæntingu. Kia Niro EV mun fást bæði með 455 og 289 km drægni þannig að viðskiptavinir geta valið á milli hvor útfærslan hentar betur. Við hjá Öskju erum bjartsýn á að þessi bíll muni njóta vinsælda þegar hann kemur hingað til lands en við munum frumsýna bílinn um næstu áramót. Hann verður að sjálfsögðu með 7 ára ábyrgð eins og allir nýir Kia bílar," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Bílaumboðinu Öskju.

Þorgeir segir að Kia stefni að því að bjóða 16 rafknúna bíla árið 2025. ,,Þeir munu verða hreinir rafbílar, Hybrid eða Plug-in Hybrid útfærslur. Þá hyggst Kia kynna fyrsta vetnisknúna bíl fyrirtækisins árið 2020. Það er því mikið að gerast hjá Kia um þessar mundir og ljóst að fyrirtækið ætlar sér að vera áfram í fremstu röð er kemur að nýjustu tækni og þróun rafbíla."

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.