Kia og Uber munu vinna saman að því að finna leiðir til að draga úr heildarkostnaði bíleigenda með því að greina ýmsa valkosti PBV-bíla og hugsanlegt framboð á BaaS-áskrift (Battery as a Service) til að lækka upphafskostnað við bifreiðakaup. Með ávinningi bæði fyrir Uber og bílstjóra mun samstarfið einnig auka vöxt Kia Flex-áætlunarinnar í Norður-Ameríku, en fyrirhugað er að bjóða hana á alþjóðavísu í nánustu framtíð.
Kia Flex er þegar í notkun í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna og gerir ökumönnum kleift að velja Kia-bíla til notkunar hjá Uber. Útbreiðsla Kia Flex mun bjóða Uber-bílstjórum upp á ítarlegan ökutækjapakka, sem inniheldur meðal annars rafbílavalkosti, tryggingar og viðhald.
„Bílstjórar Uber eru þegar byrjaðir að nota rafbíla og eru sex til sjö sinnum fljótari að tileinka sér rafbílanotkun en almenningur í Bandaríkjunum og Evrópu,“ sagði Susan Anderson, aðstoðarforstjóri viðskiptaþróunar á heimsvísu. „Það er frábært fyrir okkur öll vegna þess að þegar leigubílstjórar skipta í rafbíla leiðir það af sér þrefaldan til fjórfaldan ávinning í útblæstri samanborið við meðalökumann sem skiptir yfir í rafbíl. Með því að vinna með Kia og veita fyrirtækinu innsýn okkar stefnum við að því að auka eftirsóknina og lækka kostnað við rafbílanotkun þannig að þeir verði eðlilegri valkostur fyrir fleiri ökumenn.“
Notkun á greiningar- og forvarnarþjónustu Kia Connect mun auka sparnað í rekstri með gagnadrifnum lausnum sem greina merki um hugsanlegar bilanir og lágmarka viðhaldskostnað og stöðvunartíma.
PBV-áætlun Kia sem var afhjúpuð fyrr í vikunni á CES-sýningunni felur í sér áratugalanga áætlun í mörgum liðum sem mun leiða til þess að PBV-bílar munu gjörbylta samgöngumarkaðnum, á sama tíma og þeir hjálpa til við að efla metnað Hyundai Motor Group í tengslum við þjarkatækni, háþróaðar samgöngur í lofti og sjálfvirkan akstur. Framleiðsla sérsmíðaðra bíla mun í fyrstu byggjast á kynningu á nýjum, einingaskiptum bíl sem kallast Kia PV5 og svo er áætlað að fleiri útfærslur verði settar á markað, þar á meðal: PV5-kassabíll, PV5-sendiferðabíll, PV5-undirvagn með stýrishúsi, sjálfkeyrandi PV5-leigubíll og PV5-pallbíll. Þó að allar útfærslur verði byggðar á sömu sveigjanlegu einingum grunngerðarinnar mun hver og ein bjóða upp á einstaka eiginleika, með frekari fínstillingum fyrir Uber sem eru sérsniðnar fyrir leigubílamarkaðinn.