15. júní 2023

Kia kynnir samstarf við frumkvöðlafyrirtæki í sjálfbærni

Samstarfsaðilar hafa það að markmiði að endurnýta úrgang úr sjó eða á leið til sjávar og gera úr honum sjálfbærar lífsstílsvörur

kia-kynnir-samstarf-til-að-hvetja-til-ábyrgra-siglinga

Kia hefur efnt til samstarfs við frumkvöðlafyrirtækin Polyola, Odyssey Innovation, Sieve og Waterhaul til að hvetja til vistvænna leiða til að ferðast um hafið og víðar.
Sjálfbærni gegnir lykilhlutverki í Plan S frá Kia og umbreytingu Kia í fyrirtæki sem veitir sjálfbærar samgöngulausnir.

Á alþjóðlegum degi hafsins tilkynnti Kia Europe um samstarf sitt við fjögur sprotafyrirtæki sem hugsa á svipuðum nótum: Polyola, Odyssey Innovation, Sieve og Waterhaul. Kia trúir því að engin ein stofnun eða fyrirtæki geti fundið lausnirnar fyrir sjálfbæra framtíð. Þess í stað þurfum við að efna til samstarfs til að vinna að þessu sameiginlega markmiði. Samstarfið er einnig í samræmi við alþjóðlega viðleitni Kia til að draga úr plastúrgangi í gegnum samstarfið við The Ocean Cleanup og stefnu fyrirtækisins um að nýta þetta efni betur í endurvinnslu.

Við trúum því að hreyfing kveiki hugmyndir og að sumar hugmyndir geti orðið kveikjan að hreyfingu. Þess vegna beinum við sjónum okkar að nýstárlegum útivistarmerkjum og höldum hugmyndum þeirra, sögum og nýsköpun á lofti til þess að hvetja aðra til ábyrgari samgangna.

„Sjálfbærni er lykilatriði í því að marka nýja stefnu í samgöngum,“ sagði Sjoerd Knipping, markaðs- og vörustjóri hjá Kia Europe. „Við deilum þessari sýn með ungum vörumerkjum eins og Odyssey Innovation, Waterhaul, Polyola og Sieve með því að skapa ábyrgar upplifanir sem auðga lífsstíl viðskiptavina og stuðla að jákvæðum breytingum fyrir tilstilli ábyrgra samgangna.“

Samstarfinu er ætlað að auðvelda fólki að komast milli staða á ábyrgan hátt á grundvelli þeirrar hugmyndar að þegar sjálfbærni í bæði samgöngum og tómstundum fer saman skapi það tvöfaldan ávinning fyrir okkur öll. Allir fimm samstarfsaðilarnir endurnýta úrgang úr sjónum, eða sem hefði annars endað í sjónum, til þess að búa til lífsstílsvörur. Þeir vinna stöðugt að því að draga úr umhverfisáhrifum sínum um leið og þeir ná hámarksárangri með vörum sínum.

Polyola

Brimbretti úr 100% pólýúretani, búin til úr endurunnu efni og 100% endurvinnanleg

Polyola er franskt fyrirtæki sem leitar innblásturs í langri sögu brimbrettaiðkunar, auk nýjustu strauma og stefna í efnisnotkun. Það þróar og framleiðir nútímaleg og sjálfbær hráefni fyrir brimbrettaiðnaðinn sem hafa lágmarksáhrif á umhverfið en skila hámarksárangri. Kia Europe hefur efnt til samstarfs við Polyola til að skoða framtíð brettasmíði, brimbrettaiðkunar og sjálfbærari samgangna.

  • Nýsköpun í efnisnotkun: Pólýúretan úr endurunnu efni sem hægt er að endurvinna að fullu (breyta í vökva) svo verðmæt hráefni hafni síður í landfyllingum og til að draga úr þörfinni á því að nota nýjar auðlindir.
Brimbretti frá Polyola

Odyssey Innovation

Handspaðar búnir til úr rusli úr hafinu og gömlum blautgöllum

Odyssey Innovation er enskt fyrirtæki sem var stofnað af löngun til þess að hreinsa plast úr hafinu. Árið 2014 setti stofnandinn Rob Thompson á fót hóp sjálfboðaliða til að kafa eftir plasti og gömlum veiðarfærum sem hægt væri að umbreyta í eitthvað gagnlegt. Kia Europe hefur efnt til samstarfs við Odyssey til að styðja við verðlaunuðu handspaðana þeirra, sem brimbrettaiðkendur hönnuðu fyrir aðra brimunnendur um allan heim.

  • Nýsköpun í efnisnotkun: Odyssey framleiðir 100% hnöttóttar plastkúlur úr endurheimtum veiðarfærum, köðlum sem hefur verið safnað saman og endurunnu gervigúmmíi.
Handspaðar frá Odyssey Innovation

Sieve

Brimblöðkur úr endurunnum flöskutöppum

SIEVE er þýskt fyrirtæki sem hefur ást á hafinu, forvitni og löngun til að þróa sjálfbærar og nýstárlegar lausnir að leiðarljósi. Stofnendur Sieve eru ástríðufullir brimbrettaiðkendur og höfðu því mikinn metnað fyrir því að þróa ábyrgar lausnir til að draga úr mengun og rusli í hafinu. Kia Europe hefur efnt til samstarfs við Sieve til að kynna sér grunnstefnu þeirra, ástríðu fyrir nýstárlegum lausnum og þróun sjálfbærra brimblaðkna.

  • Nýsköpun í efnisnotkun: SIEVE notar endurunna flöskutappa sem eru styrktir með trefjum. Trefjarnar eru notaðar sem viðbótarefni á meðan leitað er að endurunnum kosti.
Brimblöðkur frá Sieve

Waterhaul

Sólgleraugu og strandhreinsibúnaður úr gömlum veiðarfærum

Með því að nota gömul veiðarfæri, skaðlegasta plastúrganginn sem fyrirfinnst í sjónum, býr Waterhaul til framúrskarandi gleraugu og gagnlegar vörur sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Á hverjum vetri fyllist strandlengjan umhverfis Cornwall á Englandi, þar sem Waterhaul hefur höfuðstöðvar sínar, af gömlum, yfirgefnum veiðarfærum sem ógna sjávarlífi. Stofnendur Waterhaul ákváðu að bregðast við þessu með því að þróa endurvinnslulausnir til að breyta þessum plastúrgangi í auðlind. Kia Europe hefur efnt til samstarfs við Waterhaul til að styðja við vörur fyrirtækisins, sem hvetja fólk til að tengjast og standa vörð um höfin okkar.

  • Efni sem notað er: 100% endurunnin veiðarfæri (sólgleraugnaumgjarðir, rusltínur og pokagjarðir), gler úr steinefnum (sólgleraugu) og endurunnið seglefni (ruslapokar).
Sólgleraugu frá Waterhaul

Ný efni og endurnýtingarbyltingin

Á síðasta ári skrifaði Kia undir sjö ára alþjóðlegan samstarfssamning við The Ocean Cleanup, frjáls félagasamtök sem þróa og sérsníða tækni til að sporna við plastmengun í höfum heimsins. Verið er að fella plast sem The Ocean Cleanup safnar saman inn í virðiskeðju fyrirtækisins.

Kia hyggst jafnframt grípa til aðgerða til að nýta endurnýjanlegar auðlindir og notast við vistvænni efni í framleiðslu sinni. Í því felst að minnka smám saman notkun á leðri, notast við tíu efni sem eru skilgreind sem sjálfbær í innanrými bíla og leitast stöðugt við að þróa ný, lífræn efni.

Kia EV9 er búinn vistvænum efnum í innanrými svo sem leðurlíki úr lífrænu pólýúretani. Notast er við endurunnið plast í ýmsum hlutum í innanrými. Ofið áklæði og teppi eru gerð úr endurunnu PET-plasti og endurunnum fiskinetum og skapa notalega lúxustilfinningu.

Kia sér samsvörun á milli sjálfbærra vatnaíþrótta og sjálfbærra samgöngueiginleika nýja Kia EV9-bílsins. Þetta er hinn fullkomni útivistarbíll. V2L-hleðslubúnaður knýr raftæki og útilegubúnað og jeppaeiginleikarnir henta hvers kyns ævintýrum utandyra.