Breytingar á atvinnubílaverkstæði Öskju

Breytingar á atvinnubílaverkstæði Öskju

Nýir þjónustustjórar á atvinnu- og hópbílaverkstæði

Eftir áratugastarf í framlínunni hefur Ágúst Guðmundsson ákveðið að stíga til hliðar sem þjónustustjóri atvinnubílaverkstæðis Öskju og taka við stöðu verkstjóra. Ágúst hefur starfað við þjónustu við Mercedes-Benz bifreiðar, fyrst hjá Ræsi en síðan frá árinu 2005 hjá Bílaumboðinu Öskju. Hann var einn af fyrstu starfsmönnum fyrirtækisins og á stóran þátt í uppbyggingu þess allt frá stofnun.

Atvinnubílaverkstæði Öskju hefur vaxið mikið undanfarin ár samhliða auknum umsvifum í atvinnulífinu og hefur Ágúst leitt þær breytingar ásamt öflugum hópi samstarfsfélaga. Undanfarin ár hafa umsvif tengd hópbifreiðum aukist mikið samhliða aukinni ferðaþjónustu, enda hafa Mercedes-Benz hópbifreiðar verið mjög vinsælar í þeim geira. Samhliða breytingum á stöðu þjónustustjóra var því ákveðið að stofna sérstakt hópbílaverkstæði við hlið atvinnubílaverkstæðisins, með sérstaka áherslu á þjónustu við hópferðafyrirtæki sem hafa Mercedes-Benz ökutæki í sínum flota.

Eftirmenn Ágústs koma úr hans eigin röðum og hafa starfað við hlið hans um árabil. Við starfi þjónustustjóra atvinnubílaverkstæðis Öskju tekur Jón Haukur Ólafsson og við nýju starfi þjónustustjóra hópbílaverkstæðis fyrirtækisins tekur Auðunn Atli Sigurðsson. Viðskiptavinir Öskju þekkja þá báða þar sem þeir hafa starfað um árabil sem þjónusturáðgjafar í verkstæðismóttökunni við hlið Ágústs.

Jón Haukur Ólafsson hefur starfað hjá Öskju síðan 2011, alla tíð sem þjónusturáðgjafi í verkstæðismóttöku atvinnubíla. Hann hefur nýlokið námi hjá Háskólanum í Reykjavík sem ber heitið ,,Stjórnendur í bílgreinum", en það nám er hannað í samstarfi við Bílgreinasambandið. Einnig lauk Jón Haukur við nám í febrúar 2016 hjá Mercedes-Benz Global Training í Bretlandi sem ber heitið "Certified Service Advisor".

Auðunn Atli hóf fyrst störf hjá Öskju árið 2006, einnig í verkstæðismóttöku atvinnubíla líkt og Jón Haukur. Árið 2008 stundaði Auðunn Atli nám hjá Mercedes-Benz í Írlandi sem gaf honum starfsheitið „Certified Service Advisor". Auðunn Atli gerði hlé á starfi sínu hjá fyrirtækinu árið 2010 og réð sig til EvoBus í Manchester í Bretlandi. Þar starfaði hann allt til ársins 2015 þegar hann sneri aftur heim til Íslands, og tók við starfi þjónusturáðgjafa hjá Öskju. Auðunn Atli býr því yfir mikilli reynslu í þjónustu við hópbíla sem mun eflaust koma íslenskum flotaeigendum til góða.

Við vonum að viðskiptavinir Öskju taki þessum breytingum vel og eigi áframhaldandi gott samstarf með okkur.

                           

            Jón Haukur Ólafsson            

Jón Haukur Ólafsson

Þjónustustjóri
atvinnubílaverkstæðis

jho(hja)askja.is | s. 590 2106

       
            Ágúst Guðmundsson            

Ágúst Guðmundsson

Verkstjóri
atvinnubílaverkstæðis

 

       
            Auðunn Atli Sigurðsson            

Auðunn Atli Sigurðsson

Þjónustustjóri
hópbílaverkstæðis

aas(hja)askja.is | s. 590 2107

       

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.