Ábyrgðarskilmálar Mercedes-Benz

Nýir bílar

  • Bílaumboðið Askja, Krókhálsi 11, Reykjavík, fyrir hönd Mercedes-Benz AG, ábyrgist hina seldu bifreið, einstaka hluta hennar og hlutasamstæður (en: components) gagnvart efnis- og framleiðslugöllum er í ljós kunna að koma á ábyrgðartímanum, skv. nánari skilmálum í ábyrgðarskírteini framleiðanda. Verksmiðjuábyrgð tekur gildi á nýskráningardegi og varir í 24 mánuði frá þeim degi án aksturstakmarkana.

    Að auki fylgir bifreiðinni skilyrt framlengd ábyrgð Bílaumboðsins Öskju sem gildir til 36 mánaða aldurs frá skráningardegi, eða 60.000 km aksturs, hvort sem fyrr kemur. Þetta á eingöngu við bíla sem eru seldir nýir eftir 1. janúar 2020 af Bílaumboðinu Öskju. Hin framlengda ábyrgð nær til galla sem upp kunna að koma í bílnum að lakki og margmiðlunarbúnaði undanskildum. Forsendur fyrir því að ábyrgðarframlengingin gildi er að bíllinn sé þjónustaður af viðurkenndum þjónustuaðila og einungis séu notaðir varahlutir viðurkenndir af Mercedes-Benz. Viðurkenndur þjónustuaðili er verkstæði sem stenst staðla og kröfur Mercedes-Benz. Yfirlit yfir viðurkennda þjónustuaðila.

    Kaupendum Mercedes-Benz bifreiða býðst einnig að kaupa skilyrta framlengda viðbótarábyrgð til 60 mánaða aldurs bifreiðar eða 100.000 km aksturs, hvort sem fyrr kemur. Ábyrgð þessi fylgir bifreið sé hún seld áfram til nýrra eigenda innan ábyrgðartíma. Hægt er að bæta við 60 mánaða/100.000 km ábyrgð innan 24 mánaða frá nýskráningardegi bílsins.

    Ábyrgð á aðalrafhlöðum tengiltvinnbifreiða þ.e. bifreiða sem bæði eru knúin með rafmagni og brunahreyfli (en: Plug-In-Hybrid) er til 6 ára/100.000 km eða hvort sem fyrr kemur. Miðað er við viðmið framleiðanda við mat á ábyrgð rafhlaðna.

    Ábyrgð á aðalrafhlöðum rafbifreiða þ.e. bifreiða sem einungis er knúin rafmagni (en: electric) er til 8 ára/160.000 km eða hvort sem fyrr kemur. Miðað er við viðmið framleiðanda við mat á ábyrgð rafhlaðna.

    Skilyrt ábyrgð til 24 mánaða er á göllum í lakki og/eða undirvinnu þess. Skilyrðin eru þau að í hverri þjónustuheimsókn er ástand lakksins skoðað og niðurstaða þeirrar skoðunar bókuð. Ráðlegging um nauðsynlegar viðgerðir eru settar fram ef við á. Í engum tilvikum er bætt lakk þar sem rekja má skemmdir til grjótkasts eða annara aðskotahluta.

    Skilyrta ábyrgðin bætir einungis viðgerðarkostnað (endurheimt fyrra ástands) og mögulegan flutning bifreiðar á þjónustuverkstæði sem ASKJA hefur viðurkennt, sé bilun þess eðlis að ekki sé unnt að aka bifreiðinni. Komi fram bilun á bifreiðinni á ábyrgðartímanum ber eiganda hennar að tilkynna það Öskju eða næsta viðurkennda þjónustuaðila án tafar. Dráttur á að tilkynna bilun/meintan galla getur valdið frekari skaða og/eða ógildingu ábyrgðar á biluninni/gallanum. Staðfest bilun frá viðurkenndu Mercedes-Benz verkstæði þarf að liggja fyrir áður en að ábyrgðarviðgerð á rétt á sér. Skilyrta ábyrgðin bætir ekki óbeinan kostnað s.s símakostnað, ferðakostnað, tekjutap og kostnað við bílaleigubíl.

    Framleiðendur ábyrgjast yfirbyggingu bifreiðarinnar gagnvart gegnumryði í 8 ár með þeim skilyrðum að bifreiðin hafi fengið reglulegt viðhald hjá viðurkenndum þjónustuaðila Mercedes-Benz. Gegnumryð er skemmd af völdum ryðs sem byrjar á innri hlið yfirbyggingar og endar með sýnilegri skemmd á ytri hlið eða gati.

  • Undantekningar frá ofangreindum skilmálum eru sem hér segir, en nánari upplýsingar gefur Bílaumboðið Askja.

    Búnaður sem hvorki hefur verið settur í bifreiðina hjá Mercedes-Benz né Bílaumboðinu Öskju er ekki undir neinum kringumstæðum í ábyrgð né skemmdir sem hafa orðið af völdum hans.

    Ekki er tekin ábyrgð á skemmdum af völdum eftirtalinna atriða:

    a) Tæring vegna skemmda af völdum óhappa, vanrækslu, misnotkunar eða breytinga á bifreiðinni.

    b) Skemmdir / tæring / hrörnun af völdum efnamengunar, of sterkra hreinsiefna, fugladrits, súrs regns, snjóhagls, umferðaróhappa, steinkast, sandfoks, saltmengunar, afísunarefna, grjótkasts, eldsvoða, mannlegra mistaka. Athugið að þetta er ekki tæmandi listi um utanaðkomandi áhrif

    c) Skemmdir af völdum óeirða eða náttúruhamfara.

    d) Tæring og / eða flögnun lakks vegna vanrækslu á þrifum og lakkvörn (bón)

    e) Vanræksla á að lagfæra minniháttar skemmdir í lakki.

    f) Skemmdir / tæring / hrörnun / bilanir, sem rekja má til þess, að ekki hefur verið farið eftir fyrirmælum í eigandahandbók (en: Owner‘s Manual).

    g) Skemmdir eða slit á innréttingu sem rekja má til notkunar húðvara t.d. sótthreinsispritts

    Endurnýjun á eftirtöldum hlutum telst eðlilegur viðhaldskostnaður og nær ábyrgðin því ekki til þeirra að öllu leyti nema um sé að ræða staðfestan framleiðslugalla:

    a) Loftsía, olíusía, eldsneytissía, viftureim, rafkerti

    b) Hemlaborðar, hemlaklossar, hemlaskálar, hemladiskar, þurrkublöð.

    c) sjálfskipting eða íhluti hennar ef rekja má bilun til eðlilegs slits

    d) Öryggi, ljósaperur, allar olíur, síur og eldsneyti.

    e) Dekk og felgur

    f) hjólastilling og stilling hurða

    Ábyrgð gagnvart skrölti og öðrum hávaða í innréttingu og yfirbyggingu er takmörkuð. Þá fellur eðlileg rýrnun, upplitun og aflögun utan ábyrgðarinnar, enda miðast ofangreint ávallt við notkun bifreiðarinnar

  • Ábyrgðin tekur hvorki til eðlilegs slits á bifreiðinni né skemmda, sem kunna að verða vegna óhappatilvika, misnotkunar, vanrækslu í meðferð eða við afbrigðilega notkun.

    Við afbrigðilega notkun getur verið nauðsynlegt að líta eftir vissum þáttum með skemmra millibili en sýnt er í þjónustuhandbókinni, t.d. loftsíu, tímareim, olíur og sótagnasíu.

    Með afbrigðilegri notkun er t.d. átt við eftirfarandi (listi ekki tæmandi):

    · Akstur á mjög ósléttum vegum eða utan vega.

    · Akstur í vatni.

    · Akstur á mjög stuttum vegalengdum eða akstur í miklum kulda.

    · Langvarandi lausagang hreyfils án þess að bifreiðinni sé ekið.

    · Akstur með of þungan hengi- / dráttarvagn eða of mikinn hlassþunga.

    · Kappakstur og annar áhættuakstur.

  • Færa skal bifreiðina til þjónustueftirlits hjá viðurkenndum þjónustuaðila Mercedes-Benz sem þjónustar bílinn samkvæmt fyrirmælum sem gefin eru hverju sinni í aksturstölvu bifreiðarinnar. Þjónustuaðgerðir viðurkennds þjónustuaðila eru skráðar í gagnagrunn Mercedes-Benz, „Digital Service Booklet (DSB)“.

    Brýnt er að allt eftirlit t.d. þjónustuskoðanir séu í höndum vottaðs Mercedes-Benz þjónustuaðila sem hefur yfir réttum upplýsingum og réttum tækjabúnaði að ráða. Bílaumboðið Askja áskilur sér rétt til að hafna bótakröfum ef þessu atriði er ekki fullnægt.

  • Mercedes-Benz bifreiðar njóta 24 mánaða verksmiðjuábyrgðar frá framleiðanda.

    Með þessari viðbótarábyrgð framlengist ábyrgð bifreiðarinnar í 60 mánuði frá nýskráningu. Í framhaldi er möguleiki á því að framlengja viðbótarábyrgðina um 12 mánuði í einu og til allt að 120 mánaða frá nýskráningu bifreiðar.

    Nánar um viðbótarábyrgð

Sendibílar

  • Almennt gilda sömu skilmálar um sendibíla og fólksbíla. Kaupendum Mercedes-Benz sendibíla býðst einnig að kaupa skilyrta framlengda viðbótarábyrgð til 60 mánaða aldurs bifreiðar eða 160.000 km aksturs, hvort sem fyrr kemur. Ábyrgð þessi fylgir bifreið sé hún seld áfram til nýrra eigenda innan ábyrgðartíma. Hægt er að bæta við 60 mánaða/160.000 km ábyrgð innan 24 mánaða frá nýskráningardegi bílsins.

    Til þess að viðhalda ábyrgð bifreiðarinnar þarf að mæta með hana í reglulegar þjónustuskoðanir hjá viðurkenndum þjónustuaðilum Mercedes-Benz. Viðurkenndir þjónustuaðilar.

Notaðir bílar

  • Tveggja ára aukaábyrgð með allri þjónustu innifaldri fylgir þegar þú kaupir notaðan, viðurkenndan Mercedes-Benz bíl frá Öskju.. Ábyrgðin felur í sér allar þjónustuskoðanir og viðhald hjá viðurkenndum þjónustuaðilum Mercedes-Benz. Allar þjónustuskoðanir eru framkvæmdar samkvæmt tilmælum frá framleiðanda um hvað skuli gera miðað við aldur og akstur. Þannig tryggjum við þér faglega þjónustu og áframhaldandi akstursánægju um ókomin ár.

    Viðurkenndir Mercedes Benz bílar eru bílar sem að eru innan við fjögurra ára gamlir og eknir innan við 100.000.km.

    Hagur þinn af viðurkenndum Mercedes-Benz

    - 2 ára eða 40.000 km ábyrgð - hvort sem fyrr kemur.

    - Almennt viðhald og þjónustuskoðanir innifaldar í 2 ár frá söludegi.

    - Viðurkennt þjónustuverkstæði Mercedes-Benz tryggir að bíllinn þinn sé rétt þjónustaður.

    - Möguleiki að setja eldri bíl upp í nýjan viðurkenndan Mercedes-Benz.

    - Aðeins upprunalegir varahlutir notaðir fyrir viðgerðir og þjónustuskoðanir.

    Viðurkenndir Mercedes Benz bílar eru bílar sem að eru innan við fjögurra ára gamlir og eknir innan við 100.000.km.

Þjónustuhandbækur Mercedes-Benz

  • Þjónustuhandbók Mercedes-Benz er alfarið stafræn (DSB - digital service booklet).

    Hægt er að nálgast þjónustuhandbókina hjá viðurkenndum söluaðilum Mercedes-Benz.