Askja býður viðskiptavinum upp á aflestur kílómetrastöðu

 

Bílaumboðið Askja, sem er umboðsaðili fyrir Mercedes-Benz og KIA bifreiðar, býður eigendum þeirra upp á að staðreyna að kílómetrastaða akstursmæla gefi rétta mynd af raunverulegum akstri bifreiðanna.

Í samvinnu við framleiðendur Mercedes-Benz og KIA bifreiða getur Bílaumboðið Askja nú í flestum tilvikum staðfest með tölvuaflestri hvort átt hefur verið við akstursmæli viðkomandi bifreiða eða ekki. Í tilvikum þar sem átt hefur verið við akstursmæli og öðrum hlutum skipt út, s.s. vélartölvu, gæti þó verið erfiðara að lesa úr upplýsingum.

„Það sýnir sig meðal annars núna hversu mikils virði það er að skrá þjónustu- og skoðunarsögu bifreiða og standa rétt að viðhaldi og vinna það samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Þegar bifreið er með 7 ára ábyrgð, eins og í tilfelli KIA, og komið er með bifreiðina árlega í þjónustuskoðun, þá er meðal annars uppfærður hugbúnaður, sem getur haft margvísleg áhrif á eiginleika bifreiðarinnar, svo sem eldsneytiseyðslu. Um leið eru kílómetratölur skráðar, bæði hjá Öskju og framleiðanda sem og allir þeir varahlutir sem skipt er um. Procar málið dregur fram í dagsljósið mikilvægi þessara skráninga, og þetta á auðvitað við um allar gerðir bifreiða,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Meðal leiða sem Askja notar við greiningar á akstri bifreiðanna er aflestur gagna í tengslum við sótagnasíur dísilbifreiða og sjálfvirka kílómetraskráningu bensínbifreiða:

• Mikilvægur umhverfisvarnarbúnaður sem kom fyrst með EURO 4 staðlinum árið 2005 í útblásturskerfi dísilbifreiða er sótagnasía sem safnar í sig sótögnum úr útblæstri vélarinnar. Þegar þessi búnaður er til staðar þarf vélartölvan að vita hversu mikið sótmagn er í sótagnasíunni til að vita hvenær er þörf á að brenna úr og hreinsa sótagnasíuna. Greining á þeim gögnum, s.s. hvenær síðasta brennsluferli átti sér stað og einnig heildarakstur á sótagnasíu, veitir upplýsingar um akstur bifreiðarinnar en sótbrennsluferlið fer að öllu jöfnu fram á um það bil 250 km fresti.

• Varðandi bensínbifreiðar er hægt að senda gögn úr tölvum þeirra til framleiðanda, og í tilviki Öskju bæði til Mercedes-Benz og KIA, sem geta lesið úr þeim upplýsingar um sjálfvirka kílómetraskráningu. Slík athugun tekur að jafnaði tvo til þrjá daga.


Hægt er að bóka bifreiðar í skoðun með því að hafa samband við þjónustuver Öskju. Í skoðuninni er farið yfir upplýsingar úr tölvum bifreiðanna. Um leið er farið yfir þjónustusögu bifreiðarinnar hjá Öskju eða þjónustuaðilum, reglubundnar aðalskoðanir hjá skoðunarfyrirtækjum og aðrar upplýsingar sem liggja fyrir. Þessi þjónusta er eigendum Mercedes-Benz og KIA bifreiða, sem verið hafa í eigu Procar, boðin að kostnaðarlausu. Óski aðrir eigendur Mercedes-Benz og KIA eftir þessari þjónustu er hún boðin frítt með þjónustuskoðunum.

Hægt er að panta tíma hjá okkur í gegnum netfangið folksbilaverkstaedi@askja.is eða í síma 590 2130.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.