Umhverfismildir Kia bílar verða opinberir bílar KSÍ

Umhverfismildir Kia bílar verða opinberir bílar KSÍ

Guðni og Jón Trausti héldu upp á samstarfið og tóku fussball leik á Laugardalsvelli.

31. ágúst 2018

Bílaumboðið Askja og Knattspyrnusamband Íslands hafa undirritað samstarfssamning til næstu tveggja ára. Samningurinn tryggir að Kia bílar verða opinberir bílar KSÍ og Askja einn af þjónustuaðilum KSÍ.

KSÍ mun nota þrjá nýja og glæsilega Kia bíla í daglegum rekstri og mun einnig nota Kia bíla í landsliðsverkefni s.s. til landsliðmanna og kvenna, dómara og annara aðila. Askja leggur til umhverfisvæna bíla sem er í samræmi við breyttar áherslur KSÍ í umhverfismálum.
Bílarnir sem um ræðir eru Kia Soul EV, sem er hreinn rafbíll, Kia Optima Plug-in Hybrid og Kia Ceed sem er með umhverfismilda bensínvél. Askja setur einnig upp hleðslustaur fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal þar sem hægt verður að hlaða bílana.

,,Askja og KSÍ hafa átt í farsælu samstarfi til margra ára og það er mjög ánægjulegt að halda því góða samstarfi áfram. KSÍ mun nota Kia bíla í rekstur sambandsins allt árið í kring og við erum ákaflega stolt af því," segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

,,Það er búið að vera frábært að fylgjast með uppgangi íslenskrar knattspyrnu undanfarin ár og það hefur verið mikill heiður fyrir okkur að fá að vera með í þessu verkefni með KSÍ. Það eru spennandi tímar framundan með tilkomu Þjóðardeildarinnar og það yrði alveg stórkostlegur árangur ef stelpurnar tryggja sig á HM á morgun," segir Jón Trausti enn fremur.

Guðni Bergsson formaður KSÍ kveðst mjög ánægður með samstarfið, „Við höfum átt traust og gott samstarf við Öskju undanfarin ár og það er ánægjulegt að á því verði framhald. Það er gleðiefni að fá vistvæna bíla frá Kia sem styðja við þá stefnu okkar að verða umhverfisvænni og munu nýtast sambandinu vel á komandi árum.“

Kia hefur um árabil verið einn af aðalstyrktaraðilum FIFA og UEFA og hefur verið áberandi á stórmótunum m.a. á HM og EM. Nú er Kia einnig orðinn einn af aðalstyrktaraðilum Evrópudeildarinnar.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.