Tilkynning Öskju vegna bílaleigunnar Procar

Tilkynning Öskju vegna bílaleigunnar Procar

20. febrúar 2019

Vegna framkominna upplýsinga um að bílaleigan Procar ehf. hafi breytt akstursmælum bíla fyrir sölu þeirra vill Bílaumboðið Askja koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri við viðskiptavini sína.

Askja keypti samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, 176 bíla af Procar bílaleigu á árunum  2012 til 2018. Þar af voru 7 keyptir árið 2017 og 2 keyptir árið 2018. Í engu þessara tilvika vöknuðu grunsemdir um að bílaleigan hefði rangt við í viðskiptunum. Askja hefur selt alla þessa bíla nýjum eigendum.

Af fréttaflutningi um málið má þó ráða að tilefni sé til þess að ætla að átt hafi verið við  aksturmæla í einhverjum þeirra bíla sem Askja keypti af bílaleigunni. Askja lítur málið því alvarlegum augum enda getur það varðað umtalsverða hagsmuni viðskiptavina bílaumboðsins.

Askja hefur krafið bílaleiguna um ítarlegri upplýsingar um bílana sem um ræðir og væntir svara innan skamms. Askja mun einnig greina eigendaferil og kílómetrastöðu þessara bíla og i framhaldinu vinna úr málinu með skilvirkum hætti og meta næstu skref með tilliti til viðskiptavina sinna. Í því sambandi er bent á að bílaleigan hefur lýst því yfir að óháður aðili verði fenginn til að meta sanngjarnar bætur til þeirra sem keyptu bíla með ranga akstursstöðu.

Askja mun í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp hafa samband við alla viðskiptavini sína sem keypt hafa bíla sem áður voru í eigu bílaleigunnar og upplýsa eftir föngum um hvort átt hafi verið við akstursmæli bíla þeirra eða ekki. Viðskiptavinir eru eindregið hvattir til að senda póst á gaedi@askja.is ef einhverjar spurningar vakna.

Athygli er  einnig vakin á því að Procar hefur falið lögmannsstofunni Draupni að svara fyrirspurnum þeirra sem keypt hafa notaðan bíl frá bílaleigunni og geta viðskiptavinir Öskju því jafnframt sent tölvupóst á netfangið dls@dls.is með upplýsingum um skráningarnúmer óski þeir eftir að fá milliliðalausar upplýsingar frá bílaleigunni.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.