Messi, strákarnir okkar og 17. Júní í Moskvu

Messi, strákarnir okkar og 17. Júní í Moskvu

6. júlí 2018

Rebekka Rut Harðardóttir 12 ára Árbæingur var fyrsti íslenski boltaberinn í sögu HM í fótbolta. Hún var Boltaberi Kia á leik Íslands og Argentínu sem endaði eins og alþjóð veit með 1-1 jafntefli, en þetta var jafnframt fyrsti leikur íslenska landsliðs í úrslitakeppni HM. Rebekka Rut var valin úr hópi yfir 200 barna sem sóttu um að vera Boltaberi Kia. Tíu krakkar komust áfram í lokaúrslit í þáttunum Söguboltanum á RÚV og var síðan sigurvegarinn kynntur í þættinum Áfram Ísland á RÚV. Rebekka Rut æfir fótbolta með Fylki í Árbænum og er mikill fótboltaaðdáandi. Hún fór til Rússlands með föður sínum Herði Valssyni.

,,Þetta var rosalega gaman. Að ganga inn á völlinn á milli leikmanna Íslands og Argentínu var æðislegt. Ég gekk fremst með dómurunum og tók síðan í höndina á öllum leikmönnunum sem var frábær upplifun. Ég var spenntust að heilsa upp á Gylfa og Aron Einar. Ég var meira spenntari að taka í höndina á þeim en Messi," segir Rebekka Rut.,,Það var rosalega mikil stemmning hjá áhorfendum. Það var rosalega skemmtilegt að vera niðri á vellinum og horfa upp í áhorfendastúkurnar. Þegar ég var búinn að heilsa leikmönnum beggja liða tók ég boltann upp af standi úti á vellinum og rétti síðan dómaranum boltann," segir hún.

Hún segir að ferðalagið hafi gengið mjög vel og ferðin hafi verið mjög skemmtileg. ,,Ég fór í ferðina með pabba mínum. Starfsmenn frá Kia fóru með okkur í skoðunarferð um Moskvu á 17. júní sem var mjög skemmtileg ferð. Það var svolítið sérstakt að vera í Rússlandi á þjóðhátíðardaginn en mjög gaman. Moskva er mjög stór borg og mjög falleg að skoða. Kreml og Rauða torgið fannst mér flottustu staðirnir. Það var gaman að koma þangað. Við fórum líka í siglingu á ánni sem var líka mjög gaman.

Ég hitti líka Gianni Infantino, forseta FIFA, og gaf honum fimmu rétt fyrir leik. Ég fór síðan upp í stúkuna til að sjá leikinn með pabba. Við gátum séð Maradona í stúkunni og voru frekar nálægt honum. Þetta var frábær leikur hjá íslenska landsliðinu og æðislegt að ná jafntefli við Argentínu. Það var alveg meiriháttar að upplifa þetta og ég svo glöð að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri," segir Rebekka Rut.

Hörður Valsson, faðir Rebekku Rutar, var ekki síður ánægður með ferðina en dóttirin.
,,Þetta var frábær ferð í alla staði og skipulagning hjá Kia var til fyrirmyndar. Starfsmenn frá Kia tóku á móti okkur á flugvellinum og fylgdu okkur alla ferðina. Þeir redduðu öllu sem þurfti að redda. Þetta var mikið ævintýri og frábær ferð fyrir okkur feðginin að upplifa," segir Hörður.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.