GLC í uppfærðri útgáfu

GLC í uppfærðri útgáfu

9. apríl 2019

Mercedes-Benz GLC sportjeppinn kemur í nýrri og uppfærðri útfærslu í haust. GLC kom fyrst á markað haustið 2015 og hefur notið mikilla vinsælda.

GLC kemur í Plug-in Hybrid útfærslu og auk þess verður sportjeppinn í boði með dísil- og bensínvélum. GLC PHEV kemur nú með endurbættri rafhlöðu sem hefur meiri drægni en áður. Nýjar og endurbættar 13,5 kW rafhlöður skila bílnum 50 km drægni á rafmagninu eingöngu miðað við bestu aðstæður. Tengiltvinnvélin skilar alls 320 hestöflum og rúmlega 412 Nm í togi. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 6,2 sekúndum.

,,GLC hefur verið afar vinsæll í tengiltvinnútfærslu og seldist upp fyrir all nokkru síðan en verður nú aftur fáanlegur þannig í haust. Það hefur verið mikill áhugi á bílnum og við erum þegar farin að taka niður forpantanir," segir Ágrímur Helgi Einarsson, sölustjóri Mercedes-Benz hjá Bílaumboðinu Öskju.

GLC er með 4MATIC fjórhjóladrifinu og 9G-TRONIC sjálfskiptingu sem staðalbúnað í öllum gerðum. GLC er fáanlegur með AIR BODY CONTROL loftpúðafjöðruninni sem býður upp á hækkun og mýkri akstur. Undirstýringin er minnkuð til að upplifa snarpari akstur og ójöfnur í akbrautinni eru vart merkjanlegar. Sjálfvirk hæðarstilling eykur stöðugleika og dregur úr eldsneytisnotkun. Á grýttum vegum eða við erfiðar aðstæður er hægt að breyta aksturshæð bílsins handvirkt.

Þá verður nýr GLC með nýju og hátæknivæddu MBUX margmiðlunarkerfi sem býður m.a. upp á hið skemmtilega Hey Mercedes raddstýringarkerfi sem kom fyrst í A-Class á síðasta ári. Bíllinn er mjög vel búinn nýjustu öryggis- og aðstoðarkerfum frá Mercedes-Benz. Kerfin og aðgerðirnar geta t.d. sjálfkrafa greint hættu, varað við þeim í neyðartilfellum og jafnvel gripið inn í til að koma í veg fyrir þær.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.